miðvikudagur, 16. maí 2018

Kvílíkur kjarkur

Mánudagurinn kom í hendingskasti og áður en ég vissi af var kominn þriðjudagur. 

Í dag er miðvikudagur og sá myndarlegi bauð mér út að borða í hádeginu. Reyndum að rifja upp hvenær við hefðum síðast farið út að borða í hádeginu á virkum degi. Eina sem við munum eftir er þegar sá myndarlegi bauð mér í hádegisverð á afmælinu mínu á veitingastað í Bankastræti sem er ekki lengur til og Ari frændi bankaði á rúðuna meðan við vorum að borða. Þá vorum við Pétur búin að þekkjast í heilan mánuð og höfum síðan siglt bæði saltan og lygnan sjó og afrekað að fara aftur út að borða í hádeginu á virkum degi.

Sunnudaginn sem leið vorum við húðlöt að vanda en ákváðum engu að síður að skilja sólina eftir á veröndinni og drífa okkur á Helgafellið (einmitt, fellið ekki fjallið). Var fljót að stinga uppá að snúa bara aftur heim á veröndina er rokið lamdi á okkur á bílaplaninu en sá myndarlegi rak mig áfram með sinni samviskuhendi. Fórum allt aðra leið en við erum vön, leið sem svei mér þá gerði fellið að meira fjalli og var fjandi skemmtileg bara. 

Rákumst af og til á erlenda konu sem bauðst til að taka mynd af okkur og við svo af henni á toppnum, smá spjall hér, smá spjall þar. Enduðum á því að keyra konuna heim og komumst að því að hún er svo ástfangin af Íslandi að hún ákvað að flytja hingað. Eiginmaðurinn, sem hún kynntist þegar hún var 18 ára, var skilinn eftir heima og foreldrum hennar finnst hún vera klikkuð að gera þetta en hún tók skrefið og hefur síðan þá fengið vinnu sem hún hefur gaman af, fundið sér íbúð miðsvæðis þar sem hún elskar að vera, farið í göngur við öll tækifæri, hitt skemmtilegt fólk en fyrst og síðast kynnst sjálfri sér og fundið hamingju í því að vera hún.

Hvílíkt hugrekki hugsaði ég sem sjálf afrekaði það helst að hunskast út fyrir hússins dyr þann daginn.

miðvikudagur, 2. maí 2018

Maríneraðar símafréttir Sigurbjargar

Lambakjötið trufflumaríneraða var í bitum og þrætt uppá grillspjót. Eiginmaðurinn var búinn að gíra sig upp í grillgírinn og sólin skein er hann fíraði upp í garminum. Rétt í þann mund er hann ætlaði að skella kjötinu á grillið kláraðist gasið. Fyrsta "grill" sumarsins átti sér því stað innandyra á vel notaðri grillpönnu heimilisins. 

Jeff hjá Símanum er ekki búinn að senda mér póst. Kannski að hann hafi náð á þessa Sigurbjörgu eftir allt saman.

þriðjudagur, 1. maí 2018

Á enn eftir að hengja úr vél

Ef einhver hefði sagt mér að ég ætti eftir að rjúka á fætur á frídegi, hella uppá kaffi fyrir eiginmanninn og rjúka því næst í ræktina hefði ég svarað viðkomandi fyrr dansa ég húlla í helvíti! Á frídegi verkalýðsins rauk ég á fætur, hellti uppá kaffi fyrir eiginmanninn og rauk því næst í ræktina.

Af öðrum háu ljósum frídagsins ber þar hæst að

  • Eftir ræktarpúlið drifum við myndarlegi okkur í allsherjarþrif hér á heimilinu enda töluvert löngu tímabært, búið að standa fyrir þrifum ansi lengi. 
  • Gúffaði í mig vöfflur með rjóma og jarðarberjum og ís og sultutaui sem Ásta og Tóta voru ansi duglegar að greina en sannast sagna hef ég ekki hugmynd hvaðan sultutauið kemur eða hvurslags tau er um að ræða. Kannast einhver við að hafa gefið okkur sultu í krukku utanaf tómatpúrru?
  • Litaði og spjallaði og skoðaði ljósmyndir með sætasta afabarninu.
  • Tókst að losa mig við kippu af hálfs lítra Epla Kristal.
  • Setti í þvottavél.
  • Fékk þá flugu í höfuðið að sumarið væri alveg að koma þrátt fyrir haglélin inn á milli sólríkjunnar.
  • Borðaði lambakjöt í trufflumaríneringu í kvöldmat.
Drakk rauðvínsglas með matnum. Er ekki búin að hengja upp úr vélinni. Ætla að fá mér annað rauðvínsglas og horfa á fyrsta þáttinn af the Crown. Er ekki heldur búin að dansa húlla í helvíti.

mánudagur, 30. apríl 2018

Sibba og Gummi

Farsíminn hringir. Þekki ekki númerið svo ég svara;

K: Katla.
J: Já, góðan daginn, Jeff heiti ég og hringi frá Símanum.
K: Sæll.
J: Sæl, ég var að vonast til að ná á Sigurbjörgu.
K: Þú ert að tala við hana.
J: Ha?
K: Ég heiti Sigurbjörg Katla.
J: Já, akkúrat, afsakaðu.
K: *þögn*
J: Já, ég var sumsé að skoða áskriftina ykkar Guðmundar og sé að þið eru með blablabla, bliblibli og mig langar til að bjóða ykkur Guðmundi blobloblo, blehblehbleh
K: Fyrirgefðu en væri ekki ráð að þú sendir mér tölvupóst varðandi þetta svo við Gummi getum skoðað þetta saman.
J: Jú, að sjálfsögðu, ég fæ þá kannski að hringja svo í þig aftur eftir nokkra daga?
K: Slærðu ekki bara á þráðinn til Gumma?

Nú mun ég bíða spennt eftir að heyra hvort Jeff eigi eftir að hringja í Guðmund Pétur, eiginmann minn eða hvort hann muni hringja í Guðmund Helga, fyrrverandi sambýlismann minn. Væri gaman ef hann hringdi í þann síðarnefnda, sér í lagi ef núverandi sambýliskona þáverandi myndi svara í símann, hún heitir nefnilega líka Sigurbjörg.

sunnudagur, 29. apríl 2018

Af sérkennilegri birtu í Kjós eða þannig

Það var eiginlega skrýtið að taka beygjuna inn afleggjarann að Meðalfellsvatni í birtu og blíðu á föstudagskveldi. Engu að síður var það næstum því eins og að koma heim þegar við bárum dótið inn í Krókinn, Eyjakrókinn okkar sem við myndarlegi heimsækjum helst tvisvar á ári. 

Hér við vatnið höfum við ófáa máltíðina mallað og ýmislegt brallað saman tvö. Hér höfum við hámað í okkur bækur, lært undir próf, drukkið áfengi af ýmsum toga og iðulega hlaupið nakin í pottinn (nei, það hefur ekkert með áfengið að gera). 

Af hverju hlaupum við svo í pottinn, gætuð þið spurt? Jú, vegna þess að það er nær undantekningarlaust alltaf veður þegar við myndarlegi erum hér. Hingað höfum við ekið í rigningu, slyddu, snjó og hríð. Ávalt í myrkri. Höfum aldrei farið útá vatnið í bát en nokkrum sinnið gengið það á ís.

Hingað komum við ávalt hlaðin bókum og mat og drykk með náttföt og hlýja sokka. Einu sinni séð stjörnufylltan himinn í heita pottinum. Það var dýrtíð. Aldrei að vita nema við náum því aftur einhverju sinni. Hingað til höfum við þó alltaf náð öllum prófum sem við höfum lært undir hér, meira að segja stærðfræðiprófinu sem ég tók hér um árið. Þá er nú mikið sagt.

Það er líka eitthvað svo gott við að kúldrast hér í veðri, kúpla sig út frá restinni af tilverunni, sökkva sér í bækur, skrifa bréf til fjarlægra landa, sitja í heita pottinum með kalt nef og jafnvel hvin í eyrum, kósa sig undir teppi með myndarlegum manni, kannski kalt á tánum já en hlýtt í hjartanu.

Get ekkert útskýrt þetta neitt betur eða  meira.

föstudagur, 27. apríl 2018

Í rigningunni í Reykjavík í gær

sveif hugur frúarinnar til vorsins í París
Harrí á himnum hvað vorið í París er dásamlegt! Að vísu var hitabylgja síðustu helgi sem gerði það að verkum að vorið varð að hásumri og ég brann á fyrsta degi. Fékk eldrauðan kraga um hálsinn en kvartaði ekki, drakk bara kampavín í lítravís, spókaði mig um á götum Parísar í kjól, kyssti karlinn, góndi á turninn að degi, miðdegi, síðdegi og kvöldi, fékk mér tiramisú og sítrónusorbet, fór í uppáhalds búðina mína, mændi á Monet og fékk mér meira kampavín.

Meira dúndrið þetta Leggja-app. Fórum í Hörpu í gærkvöld og í staðinn fyrir að hanga í röð við maskínuna í bílakjallaranum stimplaði ég bílinn í stæði meðan sá myndarlegi lagði. Fórum á Amadeus, bíótónleika. Sinfónían spilaði undir og Mótettukórinn söng. Harrí á himnum hvað þetta var flott að kona tali nú ekki um myndina sjálfa! Ríflega 3 áratugum síðar er myndin enn skemmtilegri en þegar ég sá hana síðast. Viðurkenni fúslega að ég saknaði bróður míns en við sáum myndina saman þarna fyrir þessum örfáu árum. Sá myndarlegi kom þó svo sem ekki að sök, frekar en fyrri daginn, og ég mundi eftir því að afleggja tíkinni á appinu þegar við fórum.

Í dag skein svo sólin og lét eins og sumarið væri ekki bara komið á dagatalinu. Harrí á himnum hvað það var yndislegt, næstum eins og París, munaði bara um 20 stigum.

miðvikudagur, 25. apríl 2018

Kirk og allir hinir gríslingarnir

Mudd heyrðist öskrað úr stofunni þegar ég kom heim. Greinileg átök í gangi með svaðalegum svoossh-hljóðum. Captain kallar einhver meðan ég fer úr skónum. Dramatísk tónlist læðist í hlustirnar. Commander, this is my ship svarar hugsanlega kafteinninn meðan ég legg pokann með þorskhnakkanum á eldhúsborðið. Dramatísk tónlistin magnast. This is gonna hurt segir einhver (kannski þessi Mödd) er ég fikra mig í áttina að stofunni. Dramatíska tónlistin stigmagnast enn og sá myndarlegi lítur ekki af sjónvarpinu er ég stíg inn í stofuna. 

*Kabúmm* (sprenging sumsé) og ég rétt næ að smella kossi á karlinn áður en þanin strengjatónlist fyllir neðri hæð hússins. Sé sæng mína útbreidda og læðist á tánum út úr stofunni. 

Það hefur heldur ekkert uppá sig að reyna að ná jarðsambandi við miðaldra karlmann sem er djúpt sokkinn í Star-Trek á nýtilkomnu Netflixi heimilisins. 

Einu sinni Trekkari, ávalt Trekkari. Eða svo er mér sagt.