sunnudagur, 25. mars 2012

Finnsk var hún heillin

fyrsta kakan sem bökuð var í gamla ofninum í nýja eldhúsinu


Fyrir sómagesti sem láta sér nægja að vera boðið til stofu stútfullri af drasli, dugar ekkert minna en fjall af þeyttum rjóma með



Þessu næst er svo ráð að bregða sér í fermingu og vonast eftir fleiri tertum.

Sumir dagar eru bara betri en aðrir dagar.

fimmtudagur, 22. mars 2012

Hellt uppá

kaffi í gamla eldhúsinu sem verður nýrra og nýrra með hverjum deginum



Meira að segja gamla innréttingin, sem einu sinni var ný, er að verða ný aftur.

þriðjudagur, 20. mars 2012

Spjátrungurinn



Mynd fengin að láni í leyfisleysi úr nýjasta ókeypis hefti The Reykjavík Grapevine.
Held að teiknari sé Inga María Brynjarsdóttir. Þigg ábendingar um annað.

mánudagur, 19. mars 2012

Búin að

fara í rauða hælaskó og fara á magnaða danssýningu, setja mikið síróp á pönnukökur, setja á mig varalit og dansa við þann myndarlega, skemmta mér með Vegagerðarfólki, borða læri og graut hjá tengdó, fara á tröllasamkomu með frostbitnar kinnar og bleik sólgleraugu



Já mánudagur, komdu bara.

sunnudagur, 18. mars 2012

Þegar farið er í fjallgöngu

er skynsamlegt að vera með ábyrga, fimmtán ára systurdóttur með í för sem hefur samloku til skiptanna þegar skjólgóður nestisstaður er fundinn og þú uppgvötar, eftir að hafa boðið ábyrga unglingnum hluta af þínu nesti, að bakpokinn er svona léttur af því þú gleymdir samlokunum heima og ert bara búin að skrölta með Snickers á bakinu, sem reyndar gegnir veigamiklu hlutverki því eitt höfum við Daney á kristaltæru; fjallgöngur förum við ekki í án Snickers


Ýmislegt fleira eigum við sameiginlegt, fyrir utan að vera skyldar og svona, og ber þar helst að nefna að við hlæjum báðar hátt og dátt þegar e-r rennur beint á rassinn


laugardagur, 10. mars 2012

Smá-mál

Sá myndarlegi þáði smá kaffi og vildi síðan fá skýringu á því hvað ég teldi smá kaffi þegar ég fyllti bollan hans



Það þykir mér smámunasemi yfir smá kaffi.

Kaffið var annars drukkið í stofunni innan um allt sem áður var í eldhúsinu, holinu og herbergi sem ekki er lengur til. Sá myndarlegi rífur upp parket og ber út á tún, rífur niður skáp og setur saman skúffur, stynur og blæs af vinnugleði.

E-n á eftir þegar ég nenni að leggja frá mér tölvuna og taka bífurnar af sófaborðinu ætla ég að nöldra um þessa óþolandi vinnugleði. Síðan mun ég hugsanlega hugsa um hvað ég eigi að gera en fyrst mun ég bregða þann myndarlega armlagi og láta vel af dugnaðarforkinum.

Þegar ég stend upp.

mánudagur, 5. mars 2012

Ekki bara veggir sem fjúka


málningin í loftinu fær ekki einu sinni frið



fyrir vinnuelju dáðadrengsins á heimilinu.