laugardagur, 2. desember 2017

Úr bústaðarfleti

Á helgarmorgnum vil ég helst ekki vakna fyrr en karlinn er búinn að hella uppá. Þegar svo óheppilega vill til að ég er vöknuð áður en það gerist þá klemmi ég saman augunum og neita að opna þau fyrr en kaffiilmurinn er kominn í nasirnar. Svona er ég fordekruð af þeim myndarlega. Mér til varnar ætla ég að láta ykkur vita að yfirleitt sé ég um að sækja ábótina. Hananú.

Á þessum helgarmorgni vaknaði ég í niðamyrkri. Lá og hlustaði á þyt vindsins og laufanna fyrir utan. Heyrðist á andardrætti þess myndarlega að hann mundi líka vera vakandi. Fann engann kaffiilm. Var farin að halda að það væri enn nótt en sá myndarlegi fullvissaði mig um að það væri kominn morgunn.

Meðan eiginmaðurinn hellti svo uppá gamla mátan lá ég í bælinu með lokuð augun og hugsaði upp þennan fína bloggpistil sem var fljótur að smjúga út um gluggann um leið og ég tók fyrsta kaffisopann. Er viss um að hugmyndirnar fínu dansa þarna úti með laufunum í rokinu og enda í vatninu að dansi loknum. Á meðan læt ég fara vel um mig undir sæng með heitan eiginmannskropp mér við hlið og ilmandi kaffi í bolla.

Engin ummæli: