miðvikudagur, 16. maí 2018

Kvílíkur kjarkur

Mánudagurinn kom í hendingskasti og áður en ég vissi af var kominn þriðjudagur. 

Í dag er miðvikudagur og sá myndarlegi bauð mér út að borða í hádeginu. Reyndum að rifja upp hvenær við hefðum síðast farið út að borða í hádeginu á virkum degi. Eina sem við munum eftir er þegar sá myndarlegi bauð mér í hádegisverð á afmælinu mínu á veitingastað í Bankastræti sem er ekki lengur til og Ari frændi bankaði á rúðuna meðan við vorum að borða. Þá vorum við Pétur búin að þekkjast í heilan mánuð og höfum síðan siglt bæði saltan og lygnan sjó og afrekað að fara aftur út að borða í hádeginu á virkum degi.

Sunnudaginn sem leið vorum við húðlöt að vanda en ákváðum engu að síður að skilja sólina eftir á veröndinni og drífa okkur á Helgafellið (einmitt, fellið ekki fjallið). Var fljót að stinga uppá að snúa bara aftur heim á veröndina er rokið lamdi á okkur á bílaplaninu en sá myndarlegi rak mig áfram með sinni samviskuhendi. Fórum allt aðra leið en við erum vön, leið sem svei mér þá gerði fellið að meira fjalli og var fjandi skemmtileg bara. 

Rákumst af og til á erlenda konu sem bauðst til að taka mynd af okkur og við svo af henni á toppnum, smá spjall hér, smá spjall þar. Enduðum á því að keyra konuna heim og komumst að því að hún er svo ástfangin af Íslandi að hún ákvað að flytja hingað. Eiginmaðurinn, sem hún kynntist þegar hún var 18 ára, var skilinn eftir heima og foreldrum hennar finnst hún vera klikkuð að gera þetta en hún tók skrefið og hefur síðan þá fengið vinnu sem hún hefur gaman af, fundið sér íbúð miðsvæðis þar sem hún elskar að vera, farið í göngur við öll tækifæri, hitt skemmtilegt fólk en fyrst og síðast kynnst sjálfri sér og fundið hamingju í því að vera hún.

Hvílíkt hugrekki hugsaði ég sem sjálf afrekaði það helst að hunskast út fyrir hússins dyr þann daginn.

Engin ummæli: